Hoppa yfir valmynd
3. október 2014 Dómsmálaráðuneytið

Davíð Þór Björgvinsson settur ríkissaksóknari

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson dómsmálaráðherra hefur sett Davíð Þór Björgvinsson, fyrrverandi dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, ríkissaksóknara til að gefa endurupptökunefnd umsögn um viðhorf embættisins til tveggja endurupptökubeiðna Ragnars Aðalsteinssonar hrl., dags. 4. september sl., f.h. Erlu Bolladóttur og Guðjóns Skarphéðinssonar sem fram eru komnar vegna Hæstaréttarmálsins nr. 214/1978: Ákæruvaldið gegn Kristjáni Viðari Viðarssyni, Sævari Marínó Ciesielski, Tryggva Rúnari Leifssyni, Albert Klahn Skaftasyni, Erlu Bolladóttur og Guðjóni Skarphéðinssyni.

Davíð Þór Björgvinsson
Davíð Þór Björgvinsson

Endurupptökubeiðnin er lögð fram í kjölfar skýrslu nefndar sem fyrrverandi innanríkisráðherra skipaði til að fara yfir rannsókn og málsmeðferð Guðmundar- og Geirfinnsmál. Var meðal niðurstaðna skýrslunnar að veigamiklar ástæður væru fyrir því að taka málin upp að nýju. Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sagði sig frá málinu þar sem hún telur sig vanhæfa vegna fjölskyldutengsla við einn þeirra sem stjórnaði lögreglurannsókninni á sínum tíma.

Davíð Þór Björgvinsson starfaði sem lögmannsfulltrúi að loknu lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1985, dómarafulltrúi við Borgardóm Reykjavíkur 1987–1988 og frá árinu 1989 sem dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Þá var hann lögfræðingur við EFTA-dómstólinn í Genf og Lúxemborg og prófessor við lagadeild Háskóla Íslands árin 1996 til 2003. Árið 2004 var hann kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg í Frakklandi þar sem hann starfaði þar til á síðasta ári. Frá ársbyrjun 2014 hefur hann verið prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og Háskólans í Kaupmannahöfn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum