Hoppa yfir valmynd
10. september 2014 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra kynnti sér þróun mála í Bárðarbungu á fundi hjá almannavörnum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson dómsmálaráðherra heimsótti í morgun almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ásamt ráðuneytisstjórum innanríkisráðuneytis og forsætisráðuneytis og nokkru samstarfsmönnum úr báðum ráðuneytum. Fulltrúar almannavarnadeildar fóru yfir stöðuna í Bárðarbungu og í Holuhrauni og upplýstu ráðherra um nokkrar mögulegar sviðsmyndir. Ríkisstjórnin mun ræða stöðuna á fundi sínum síðar í dag.

Björn Oddsson, sérfræðingur hjá almannavörnum, fræðir fundarmenn um stöðu mála í Bárðarbungu.
Björn Oddsson, sérfræðingur hjá almannavörnum, fræðir fundarmenn um stöðu mála í Bárðarbungu.

Frá almannavörnum sátu fundinn þeir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri, Víðir Reynisson deildarstjóri, Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn og Björn Oddsson sérfræðingur. Björn fór ítarlega yfir stöðuna og skjálftahrinuna í Dyngjujökli og sérstaklega þá sem verið hefur í Bárðarbungu síðustu daga og sagði að hún ylli mönnum nokkrum áhyggjum.

Áfram eru uppi þær sviðsmyndir sem verið hafa síðustu daga um að skjálftahrinan undir jökli fjari smám saman út, að gangurinn nái til yfirborðs á fleiri stöðum utan jökuls eða undir jökli og að gjósi í Bárðarbungu sem gæti haft víðtæk áhrif.

Björn Oddsson, sérfræðingur hjá almannavörnum, fræðir fundarmenn um stöðu mála í Bárðarbungu.

Víðir Reynisson sagði að huga yrði vel að áframhaldandi undirbúniningi og þróun viðbragða vegna þessara sviðsmynda allra. Daglegur kostnaður við vöktun og vinnu bæði hjá lögreglu og vegna vinnu vísindamanna og fleiri aðila hleypur á milljónum króna. Ríkisstjórnin ræðir stöðuna á fundi sínum síðdegis í dag og sömuleiðis hittust ráðuneytisstjórar forsætisráðuneytis, innanríkisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunaráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Þeir fylgjast með stöðu mála, fara yfir kostnað vegna aðgerða og fjármögnun og fjalla um næstu skref.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum