Hoppa yfir valmynd
8. september 2014 Dómsmálaráðuneytið

Málþing um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi haldið 25. september

Málþing um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi verður haldið á Grand hótel Reykjavík 25. september næstkomandi. Málþingið ber heitið „Zero Tolerance“ og fer fram á ensku. Norræna ráðherranefndin, innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið ásamt Jafnréttisstofu halda málþingið sem er hluti af formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014.

Á málþinginu verður fjallað um Istanbúlsamning Evrópuráðsins og þær skyldur sem hann leggur þjóðum á herðar í baráttu við ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Ísland undirritaði samninginn í maí 2011 og er nú unnið að innleiðingu hans. Portúgalski þingmaðurinn José Mendes Bota fjallar um samninginn en hann er formaður nefndar Evrópuráðsins sem vann að gerð hans.

Sami Nevala frá Finnlandi, fulltrúi
Mannréttindastofnunar Evrópusambandsins, kynnir nýja stóra könnun á ofbeldi gegn konum í 28 Evrópulöndum og Arni Hole frá Noregi fjallar um áhrif rannsóknarinnar á  stöðu þekkingar á Norðurlöndunum. Lögreglustjórinn Carin Götblad frá Svíþjóð greinir frá úttekt Svía á lögum, reglum og aðgerðum sem beitt hefur verið þar í landi í baráttu við ofbeldi.

Kynnt verða verkefni og aðgerðir frá hverju og einu Norðurlandanna sem reynst hafa vel. Þar á meðal er áhættumat norsku lögreglunnar SARA sem verið er að innleiða um allan Noreg, íslenska Suðurnesjaverkefnið verður kynnt, einnig reynsla Dana af aðgerðaáætlunum gegn kynbundnu ofbeldi og skönnun sem beitt er innan heilbrigðis- og félagsþjónustunnar í Finnlandi til að greina kynbundið ofbeldi.

Málþingið er öllum opið meðan húsrúm leyfir. Þátttökugjald er 5000 kr. Erindi verða flutt á ensku.

Nánari upplýsingar um skráningu og dagskrá má sjá á vef Jafnréttisstofu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum