Hoppa yfir valmynd
22. maí 2014 Forsætisráðuneytið

Fjögurra ára styrktarsamningur við Mannréttindaskrifstofu Íslands

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og Bjarni Jónsson, stjórnarformaður Mannréttindaskrifstofu Íslands, undirrituðu í gær styrktarsamning til fjögurra ára. Með samningnum er komið á föstum ramma um fjárframlög ráðuneytisins til skrifstofunnar en hingað til hefur styrkjum verið úthlutað til árs í senn í kjölfar umsóknar Mannréttindaskrifstofunnar.

Eftir undirritun samningsins, frá vinstri: Margrét Steinarsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Bjarni Jónsson og María Rún Bjarnadóttir.
Eftir undirritun samningsins, frá vinstri: Margrét Steinarsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Bjarni Jónsson og María Rún Bjarnadóttir.

Grundvöllur starfseminnar styrkist með þessu fyrirkomulagi þar sem henni verður gert kleift að gera skýrari langtímaáætlanir á grundvelli öruggara rekstrarumhverfis. Mannréttindaskrifstofan gegnir  lykilhlutverki sem eftirlitsaðili með framkvæmd stjórnvalda á sviði mannréttinda. Hún hefur sinnt hlutverki innlendrar mannréttindastofnunar að mörgu leyti, meðal annars með umsjón með skuggaskýrslum til eftirlitsnefnda Sameinuðu þjóðanna, gerð athugasemda við lagafrumvörp og átt gott samráð við stjórnvöld. Þá hefur hún einnig verið mikilvægur hlekkur í samstarfi frjálsra félagasamtaka á sviði mannréttindamála hér á landi.

Stjórnvöld hafa ítrekað verið hvött til þess að setja á laggirnar innlenda mannréttindastofnun í samræmi við svokölluð Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna. Þar má nefna athugasemdir frá öllum eftirlitsnefndnum sem starfa á grundvelli þeirra kjarnasamninga SÞ sem Ísland á aðild að, ábendingar mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins og tilmæli í UPR-fyrirtöku Íslands 2011. Með samningnum er lagt til grundvallar að skrifstofan styðjist við Parísarviðmiðin í starfsemi sinni um leið og starfseminni er veittur styrkur til lengri tíma og sjálfstæði skrifstofunnar undirstrikað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum