Hoppa yfir valmynd
29. júlí 2013 Dómsmálaráðuneytið

Reglugerð um rétt útlendinga til fasteignakaupa felld brott

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur skrifað undir reglugerð sem fellir brott reglugerð fyrrverandi innanríkisráðherra, nr. 358/2013, um rétt útlendinga til að öðlast eignarétt eða afnotarétt yfir fasteignum. Í því felst að útlendingar, sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, þurfa ekki að sækja um leyfi til til að öðlast yfirráðarétt yfir fasteign eða landareign hér á landi.

Forsaga málsins er sú að 17. apríl 2013 undirritaði þáverandi innanríkisráðherra reglugerð (nr. 358/2013) sem breytti reglugerð nr. 702/2002 um rétt útlendinga til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum en sú reglugerð fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Sú breyting fól í sér að EES borgarar þurftu að sækja um heimild til ráðherra til að mega kaupa fasteign hér á landi hafi þeir ekki þörf fyrir slíka eign vegna búsetu eða atvinnustarfsemi.

Viðbrögð Eftirlitsstofnunar EFTA

Eftirlitsstofnun EFA (ESA) dregur lögmæti breytinga fyrrverandi innanríkisráðherra frá 17. apríl síðastliðinn í efa. Óskaði ESA eftir rökstuðningi ráðuneytisins fyrir því hvernig reglugerðin standist 40. gr. EES samningsins um frjálst flæði fjármagns og búsetutilskipun ESB.

Heildarendurskoðun á lögum og reglum

Ráðherra ákvað að fella brott reglugerð nr. 358/2013 og kynnti hún þá ákvörðun á ríkisstjórnarfundi 25. júlí síðastliðinn. Útlendingar, sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, þurfa því ekki að sækja um leyfi til ráðuneytisins á grundvelli 1. gr. laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna nr. 19/1996. Hins vegar gilda óbreyttar reglur um ríkisborgara utan EES sem áfram þurfa að sækja um heimild vegna fasteigna- eða landakaupa.

Ráðherra hyggst jafnframt hefja heildarendurskoðun á lögum og reglum um rétt útlendinga til að öðlast eignarétt og afnotarétt yfir fasteignum í samvinnu við önnur ráðuneyti eftir því sem við á.

Sjá einnig á vef Stjórnartíðinda

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum