Hoppa yfir valmynd
8. mars 2013 Innviðaráðuneytið

Fyrirhuguðu útboði á strandsiglingum frestað

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu innanríkisráðherra um að fresta útboði á strandsiglingum við Ísland. Bæði Samskip og Eimskip hafa tilkynnt fyrirætlanir um strandsiglingar sem hefjast munu á næstu vikum. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að með því megi ætla að markmið verkefnisins nái fram að ganga og í því ljósi lagði hann til að útboði yrði frestað en áfram fylgst með framvindu málsins.

Ákveðið var á fundi ríkisstjórnarinnar þann 1. mars síðastliðinn að bjóða út strandsiglingar við Ísland en undanfarin misseri hefur fýsileiki strandsiglinga verið kannaður með margvíslegum hætti. Innanríkisráðherra skipaði nefnd í maí 2011 til að vinna að verkefninu enda engin teikn á lofti um að strandsiglingar við Ísland myndu hefjast að nýju án ríkisstuðnings þrátt fyrir mikilvægi þeirra fyrir flutningakerfi og byggðir landsins. Lagði nefndin til að strandsiglingar yrðu boðnar út miðað við ákveðnar forsendur og talið að þær gætu orðið sjálfbærar að loknu ákveðnu tilraunatímabili með styrk frá ríkissjóði.

Þar sem  bæði Samskip og Eimskip hafa tilkynnt fyrirætlanir um strandsiglingar, Samskip munu hefja sínar siglingar 18. mars og Eimskip 14. mars, þykir rétt að fresta fyrirhuguðu útboði og láta reyna á hvort markmið fyrirhugaðra strandsiglinga um að auka flutninga á sjó og draga jafnframt úr því álagi sem er á vegakerfinu muni nást til frambúðar. „Fylgst verður grannt með því hvaða fyrirkomulag verður á strandsiglingum skipafélaganna og hvort með þeim muni nást fullnægjandi þjónusta við byggðir landsins eins og stefnt var að með tilraunaverkefninu. Útboðsgögnin eru tilbúin en skynsamlegt að leggja þau til hliðar að svo stöddu,“ segir innanríkisráðherra. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum