Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2012 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Lýðræði á 21. öld: Valdið til fólksins

Lýðræði á 21. öld var yfirskrift ráðstefnu um eflingu lýðræðis á Íslandi sem innanríkisráðuneytið stóð að í dag ásamt Reykjavíkurborg, lýðræðisfélaginu Öldu og Umboðsmanni barna. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra setti ráðstefnuna og sagði meðal annars í upphafsorðum sínum að valdið ætti að vera hjá fólkinu af því að þar ætti það heima.

Ögmundur Jónasson setti lýðræðisráðstefnuna með ávarpi.
Ögmundur Jónasson setti lýðræðisráðstefnuna með ávarpi.

Ráðstefnan var send beint út á netinu og höfðu um 600 manns fylgst með útsendingunni laust eftir hádegið. Í upphafi söng stúlknakórinn Graduale Nobili nokkur lög, meðal annars lagið Power to the People. Ráðstefnan var einnig rit- og táknmálstúlkuð.

Innanríkisráðuneytið stóð að ráðstefnunni Lýðræði á 21. öld ásamt Reykjavíkurborg, Lýðræðisfélaginu Öldu og Umboðsmanni barna.

Innanríkisráðherra sagði í ávarpi sínu að valdið ætti að fara til fólksins, ekki vegna þess að það sé skynsamlegt, ekki vegna þess að við treystum fólki. ,,Ekki vegna þess að við treystum fólki til að taka skynsamlegar ákvarðanir – ekki vegna þess að VIÐ höfum ákveðið að þannig eigi það að vera. Nei, valdið á að vera hjá fólkinu vegna þess að þar á valdið heima,” sagði ráðherra og sagði að það væri grundvallarréttur hvers og eins að ráða lífi sínu að því marki að ekki skaði aðra, valdi ekki öðrum tjóni eins og hann minnti á að heimspekingar 19. aldar hefðu verið búnir að koma auga á.

Ögmundur sagði allar forsendur vera fyrir hendi á Íslandi til að nýta tæknina í þágu opinnar og gagnsærrar stjórnsýslu og lýðræðis og sagði Íslendinga í hópi fremstu þjóða í nýtingu upplýsingatækninnar. Sagði hann bæta yrði nýtingu ríkis og sveitarfélaga á þessari tækni til hagræðis bæði fyrir almenning og hið opinbera.

Í lokaorðum sínum sagði innanríkisráðherra að tími væri kominn til að setja lýðræði á oddinn, koma þingræðinu fyrir á Þjóðminjasafninu og setja í stjórnarskrá ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Engin rök mæltu gegn því, engintæknileg vandkvæði og engin veður eða óvegir sem hömluðu þeirri lausn.

Innanríkisráðuneytið stóð að ráðstefnunni Lýðræði á 21. öld ásamt Reykjavíkurborg, Lýðræðisfélaginu Öldu og Umboðsmanni barna.

Að loknu setningarávarpi ráðherra fluttu innlendir og erlendir sérfræðingar erindi um ýmsar hliðar á íbúalýðræði og kosningaaldur ungmenna. Tvær bandarískar konur fluttu erindi um fjárhagsáætlunargerð með þátttöku íbúa Melissa Mark-Viverito og Donata Secondo.

Melissa Mark-Viverito hefur verið borgarfulltrúi í New York borg frá 2006 og situr í borgarráði fyrir demókrata. Hún er fyrsta konan af rómönskum uppruna sem er kosin sem fulltrúi 8. svæðis borgarráðs, sem nær m.a. yfir Harlem. Hún er ein þeirra borgarfulltrúa sem átti frumkvæði að innleiðingu þátttökufjárhagsáætlunargerðar í New York. Donata Secondo sér um starf Participatory Budgeting Project í New York borg við innleiðingu þátttökufjárhagsáætlunargerðar. Hún er menntuð í þróunarfræðum og Suður-Ameríku fræðum frá Brown háskóla. Hún hefur stundað rannsóknir á sviði kvennafræða og alþjóðafræða. Undanfarin ár hefur hún stundað rannsóknir á útbreiðslu þátttökufjárhagsáætlunargerðar og áhrifum slíkra ferla á félagslegt réttlæti í viðkomandi samfélögum.

Lýðræðissprottnar hugmyndir

Þá fjölluðu Jón Gnarr borgarstjóri og Ellý Katrín Guðmundsdóttir borgarritari um efnið íbúalýðræði í Reykjavík og betri Reykjavík, beint lýðræði. Lýsti borgarritari reynslu borgarinnar af ýmsum verkefnum varðandi lýðræðisþróun hjá borinni og borgarstjóri talaði um lýðræðissprottnar hugmyndir.

Innanríkisráðuneytið stóð að ráðstefnu um lýðræði á 21. öld ásamt Reykjavíkurborg, Lýðræðisfélaginu Öldu og Umboðsmanni barna.Umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir, flutti erindi sem hún nefndi börn mega gagnrýna skólann og tvö ungmenni frá ráðgjafarhópi umboðsmanns barna, þær Unnur Helgadóttir og Ásta Margrét Helgadóttir, ræddu efnið maður þarf ekki að vera orðinn 18 ára til að hafa skoðun og sögðu frá reynslu sinni af því hvort og hvernig tekið væri mark á unglingum innan og utan skólans.

Innanríkisráðuneytið stóð að ráðstefnu um lýðræði á 21. öld ásamt Reykjavíkurborg, Lýðræðisfélaginu Öldu og Umboðsmanni barna.Síðasta erindið flutti síðan Martin Österdal, framkvæmdastjóri landssamtaka barna- og unglingahreyfinga í Noregi og ræddi hann um þátttöku barna og kosningar, kosningaaldur og leiðir ungmenna til þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Greindi hann frá tilraunakosningu þar sem kosningaaldur var lækkaður og nefndi að aldursmörkin hefðu verið lækkuð í nokkrum löndum, m.a. Austurríki og Þýskalandi. Fór tilraunin fram árið 2011 í 20 sveitarfélögum.

Ögmundur Jónasson innanríksráðherra flutti lokaorð og sleit ráðstefnunni sem hann sagði hafa verið afar fróðlega og ekki síst hefði verið áhugavert að heyra af reynslunni frá New York um beint lýðræði er varðaði fjárhagsleg málefni. Sýnt væri að aukin lýðræðisleg þátttaka gerði samfélögin sterkari sem endurspeglaðist í sterkum félagasamtökum og meira félagslífi þar sem lýðræðið hefði verið virkjað. Þá ítrekaði hann hrós sitt til Reykjavíkurborgar fyrir framfaraskref í auknu lýðræði og tók undir það sem hafði komið fram hjá umboðsmanni barna, ungmennunum og reynslunni frá Noregi að ef ungt fólk er ekki kallað að borðinu þá láti það áfram sem svo að hlutirnir kæmu því ekki við.

Upptökur frá ráðstefnunni.

Hér að neðan má sjá kynningar/erindi ræðumanna:

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum