Hoppa yfir valmynd
19. maí 2012 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Nýjar ógnir og samfélagsöryggi

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti erindi á ráðstefnu í St. Pétursborg í vikunni og tók þátt í hringborðsumræðum um öryggismál og nýjar ógnir. Umræðurnar spönnuðu vítt svið og var meðal annars fjallað um eftirlitsheimildir lögreglu með borgurum, útbreiðslu skipulagðrar glæpastarfsemi, efnahagslegt öryggi og tölvuöryggi, auk hryðjuverka, stríðsátaka og stórveldahagsmuna.

Ögmundur Jónasson hélt ræðu og tók þátt í pallborði á ráðstefnu í Pétursborg um öryggismál.
Ögmundur Jónasson hélt ræðu og tók þátt í pallborði á ráðstefnu í Pétursborg um öryggismál.

Sérstaklega var fjallað um samspil mannréttinda annars vegar og laga og réttarkerfa hins vegar. Ögmundur lagði í erindi sínu áherslu á að lýðræði og gagnsæi og að úrlausnir réttarkerfisins í baráttu gegn glæpum og öðrum ógnum mættu aldrei vera á kostnað mannréttinda. Tilgangurinn helgaði ekki meðalið.

Ögmundur sagði meðvitund um efnahagslegt öryggi hafa aukist til muna á Íslandi og vakti athygli á veruleika þjóða í þrengingum, þegar ágengir hagsmunaaðilar úr heimi fjármagns og stjórnmála knýðu á dyr.

Ögmundur áréttaði að hagsmunir samfélagsins í heild sinni þyrftu að vera í forgrunni í umfjöllun um öryggismál. Samfélag samanstæði af einstaklingum og fjölskyldum. Ólíkar hópar gætu upplifað ógnir á mismunandi hátt. Ríki gætu verið örugg og vel varin af lögreglu og herjum en hópar eða einstaklingar innan þeirra lifað í ótta við ofbeldi. Nefndi Ögmundur sérstaklega ofbeldi gegn konum og börnum, ofbeldi sem ekki mætti gleymast í umræðu um öryggismál.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum