Hoppa yfir valmynd
14. desember 2011 Innviðaráðuneytið

Tólf ára og fjögurra ára samgönguáætlanir lagðar fram

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti í dag fjögurra ára og tólf ára samgönguáætlanir sem dreift var á Alþingi í dag. Ráðherra sagði lagðar nýjar áherslur með þessum áætlunum, horft væri á landið sem eina heild við ákvörðun verkefna, lögð væri áhersla á verkefni á þeim landssvæðum sem í dag byggju við lakastar samgöngur og mjög aukin áhersla væri á almenningssamgöngur.

Samgönguáætlanir kynntar á blaðamannafundi í dag.
Samgönguáætlanir kynntar á blaðamannafundi í dag.

Tólf ára samgönguáætlun áranna 2011 til 2022 hefur að geyma stefnumótun en fjögurra ára áætlunin er verkefnaáætlun með fjárhagsramma fyrir árin 2011 til 2014. Tekjur og framlög til verkefna tólf ára samgönguáætlunar eru alls 296 milljarðar króna. Stærsta hluta þess fjármagns á að verja til vegamála eða 240 milljörðum.

Áherslur innanríkisráðherra

Innanríkisráðherra sagði við kynninguna að sjá mætti þá eðlisbreytingu og þróun í stefnumarkandi áætluninni að horfa til landsins í heild og allra samgöngugreina, þ.e. á landi, í lofti og á sjó og hverfa frá svæðaskiptum verkefnum. Þá sagðist hann vilja leggja á það áherslu að með stefnu samgönguáætlunar fengju þau landsvæði sem í dag byggju við lakastar samgöngur ákveðinn forgang og nefndi hann Vestfirði sérstaklega í því sambandi. ,,Á næstu árum eða til ársins 2014 mun hlutfallslega meira fé fara í verkefni á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum og rökin fyrir því er að þar búa menn ekki við sambærilega samgöngumöguleika og íbúar annarra landshluta. Ég hef áður kynnt þetta sjónarmið mitt og það endurspeglast í þessari nýju áætlun,” sagði ráðherra ennfremur.

Ögmundur Jónasson vakti einnig athygli á því við kynninguna að horfa yrði með raunsæi og fyrirhyggju til fjárveitinga við ákvörðun samgönguverkefna. ,,Við getum ekki farið af stað í framkvæmdir án þess að ákveða og sjá fyrir endann á því hvernig þau eru fjármögnuð og gefa með því út óútfylltan tékka á skattgreiðendur framtíðarinnar. Við verðum að sýna fyrirhyggju og ráðdeild á þessu sviði.”

Í samræmi við lög lagði innanríkisráðherra stefnu sína í helstu málaflokkum, auk fjárhags- og tímaramma, fyrir samgönguráð með bréfum dagsettum 18. maí 2011 og 5. september 2011. Helstu áherslur innanríkisráðherra voru: Félagshagfræðileg greining við forgangsröðun verkefna, efling almenningssamgangna, mælanleg markmið, núllsýn í umferðaröryggismálum, loftslagsmál, hlutverk samgangna við tengingu landsvæða og landsins alls, samþætting við aðrar áætlanir ríkisins, samgöngukostnaður heimilanna, greiðfærni og áreiðanleiki samgangna og jákvæð byggðaþróun.

Með nýjum áherslum er hugsað um verkefni fyrir landið í heild á öllum sviðum samgangna; á landi, í lofti og á sjó. Lögð er áhersla á verkefni á landsvæðum sem í dag búa við lakastar samgöngur. Einnig er nú aukin áhersla lögð á almenningssamgöngur.

Auk ráðherra voru fulltrúar ráðuneytisins og samgönguráðs viðstödd fundinn. Á myndinni eru frá vinstri Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneyti, Halla Sigrún Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs Flugmálastjórnar, Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri, Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Dagur B. Eggertsson, formaður samgönguráðs, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Dagný Jónsdóttir forstjóri Umferðarstofu.

Innanríkisráðherra kynnir samgönguáætlanir.

Stefnumótandi samgönguáætlun fyrir árin 2011-2022

Stefnumótandi tillaga tólf ára áætlunar skiptist í þrjá hluta. Fyrsti hlutinn er stefnumótun þar sem sett er fram stefna um hvert hinna fimm lögbundnu markmiða, þ.e.a.s. um greiðar samgöngur, hagkvæmar samgöngur, umhverfislega sjálfbærar samgöngur, öruggar og um samgöngur sem stuðla að jákvæðri byggðaþróun. Í öðrum hlutanum er grunnnet samgangna skilgreint og í þriðja hlutanum er sett fram áætlun um fjáröflun, útgjöld og helstu framkvæmdir. Þá fylgir tillögunni ítarleg greinargerð.

Helstu breytingar frá fyrri áætlun er aukin áhersla á umhverfismál, hagkvæmni samgangna, samspil samgangna og skipulags, jafnræði samgöngumáta auk áframhaldandi áherslu á öryggi vegfarenda. Þá er áhersla á að bæta greiðfærni þar sem tengingum við aðra landshluta, jafnt sem innan landsvæða er ábótavant, s.s. á sunnanverðum Vestfjörðum. Í stað markmiðs um skemmri ferðatíma til Reykjavíkur er nú lögð áhersla á að stytta ferðatíma innan landsvæða að næsta atvinnu- og þjónustukjarna.

Verkefnaáætlun fyrir árin 2011-2014

Verkefnaáætlunin skiptist í sjö kafla. Í fyrstu fimm köflunum eru flugmálaáætlun, siglingamálaáætlun, vegáætlun, áætlun Umferðarstofu og umferðaröryggisáætlun. Þar er sundurliðað og gerð grein fyrir áætluðum tekjum og gjöldum hvers árs. Í sjötta og sjöunda kafla er síðan gerð grein fyrir almennum samgönguverkefnum sem tilgreind eru í stefnumótun áætlunarinnar og framkvæmd verða á tímabilinu. Verkefnin eru tilgreind eftir markmiðum og ábyrgð á framkvæmd þeirra úthlutað.

Við undirbúning og vinnslu áætlananna var haft ítarlegt samráð við sveitarstjórnir, almenning, Samtök atvinnulífsins, auk þess sem haldið var samgönguþing sl. vor. Mat á umhverfisáhrifum áætlunarinnar var unnið lögum samkvæmt.

Rannsóknarverkefni

Á árunum 2011–2022 verður unnið að rannsóknar-, úttektar- og stefnumótunarverkefnum sem falla undir fimm meginmarkmið samgönguáætlunar. Verkefnin eru tilgreind í stefnumiðum og áherslum áætlunarinnar. Verkefnin eru liður í því að framfylgja samgönguáætlun á sama hátt og vinnsla framkvæmda-, viðhalds- og rekstrarverkefna. Á hverri fjögurra ára verkefnaáætlun eru tiltekin þau verkefni sem vinna skal á viðkomandi tímabili samgönguáætlunar og gerð er grein fyrir ábyrgðar- og samstarfsaðilum. Vinnu- og fjárframlög í tilgreind rannsóknar-, úttektar- og stefnumótunarverkefni koma frá samgöngustofnunum og samstarfsaðilum í samræmi við ábyrgð og hlutverk í hverju verkefni, samkvæmt nánara samkomulagi þeirra á milli.

Helstu verkefni

Meðal verkefna sem lokið verður á gildistíma 12 ára samgönguáætlunar og kosta yfir einn milljarð króna er ný brú yfir Hornafjarðarfljót ásamt vegagerð, ný brú yfir Ölfusá norðan Selfoss og breikkun vegar milli Selfoss og Hveragerðis og um Hellisheiði, vegarkafli á sunnanverðum Vestfjörðum og fjölmörg verkefni á Suðvesturlandi sem tengjast bættu umferðarflæði. Þá verður gert átak í lagningu bundins slitlags á tengivegi um land allt fyrir tæpa 6 milljarða króna á áætlunartímabilinu.

Meðal verkefna sem hefja á má nefna breikkun Vesturlandsvegar, nýjan veg um Dynjandisheiði, Suðurfjarðarveg og Axarveg.

Gert er ráð fyrir að lokið verði við gerð Norðfjarðarganga árið 2018, Dýrafjarðargöng árið 2022 og Hjallahálsgöng einnig 2022 (ef láglendisleið verður ekki fyrir valinu).

Sjá einnig glærur frá blaðamannafundi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum