Hoppa yfir valmynd
24. júní 2011 Dómsmálaráðuneytið

Kaþólska kirkjan óskaði ekki eftir gögnum

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur svarað bréfi lögmanns sem ritaði ráðuneytinu fyrir hönd biskups kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Er í bréfinu leiðréttur misskilningur í bréfi kaþólsku kirkjunnar þess efnis að dregist hafi að senda kirkjunni gögn frá ráðuneytinu og vörðuðu meint gróf lögbrot af hálfu þjóna kirkjunnar og stofnana hennar á skjólstæðingum sínum.

Bréfaskipti þessi eru tilkomin í framhaldi af fundi í ráðuneytinu sem biskupinn sat með ráðherra og fleiri fulltrúum ráðuneytisins. Einstaklingar höfðu leitað til innanríkisráðherra og greindu frá eigin reynslu af stofnunum kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. ,,Framferði það sem þjónar kirkjunnar virðast hafa haft í frammi gagnvart skjólstæðingum sínum felur í sér gróf lögbrot og vísaði ég þessum einstaklingum því til lögreglu,” segir í bréfi ráðherra.

Á fundinum gerði ráðherra biskupnum grein fyrir þeim upplýsingum sem honum  höfðu borist og vísaði til lögregluskýrslu þar sem rakin var reynsla fyrrnefndra brotaþola. Skýrsluna hafði ráðherra á fundinum með samþykki viðkomandi einstaklinga. Hvorki biskup né lögmaður hans óskuðu eftir því að fá lögregluskýrsluna í hendur.

Síðan segir í bréfi ráðherra: ,,Í bréfi biskups til ráðherra segir: „Reyndar var um það rætt á fyrrnefndum fundi með ráðherra að lögmanni Kaþólsku kirkjunnar yrði sendar upplýsingar sem ekki hafa enn borist.“ Þessi útlegging er ekki í samræmi við það sem fram fór á fundinum. Þar var yður gert ljóst að kirkjan gæti óskað formlega eftir afritum af lögregluskýrslunum frá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Slík ósk var hins vegar aldrei sett fram. En hvernig sem því líður – og hvort sem skilningur yðar hafi verið annar en okkar – þá sætir það furðu í ljósi þess hve alvarlega atburði er hér um að ræða að Kaþólska kirkjan skuli ekki hafa gengið fast eftir því að fá öll gögn í hendur til skoðunar þegar í stað og hefja sjálfstæða rannsókn á málinu, með það að leiðarljósi að upplýsa málið eftir fremsta megni og mæta þeim einstaklingum sem hafa verið beittir órétti af hálfu kirkjunnar þjóna.”

  • Bréf innanríkisráðherra til biskups kaþólsku kirkjunnar:

Kaþólska kirkjan á Íslandi.
Pétur Bürcher biskup,
Hávallagötu 14
101 Reykjavík

Reykjavík 24. júní 2011

Mér hefur borist bréf sem lögmaður Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi ritar fyrir yðar hönd. Í bréfinu er vísað til fundar sem ég óskaði sérstaklega eftir með yður eftir að til mín höfðu leitað einstaklingar sem höfðu ljótar sögur að segja af eigin reynslu af stofnunum Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Framferði það sem þjónar kirkjunnar virðast hafa haft í frammi gagnvart skjólstæðingum sínum felur í sér gróf lögbrot og vísaði ég þessum einstaklingum því til lögreglu.

Hins vegar hafði ég orðið var við vanmátt kerfisins til að takast á við fyrnd kynferðisbrot, sem framin voru innan stofnana og félagasamtaka sem njóta fjárhagslegs stuðnings og viðurkenningar hins opinbera.

Þetta varð meðal annars til þess að ýta undir þá ákvörðun að koma á fót sérstöku fagráði innan ráðuneytisins til að vera til ráðgjafar um hvernig bregðast ætti við í tilvikum af þessu tagi; ráð sem væri aðgengilegt fórnarlömbum og síðan stjórnvöldum til ráðuneytis. Í erindisbréfi fagráðs segir m.a.: „Innanríkisráðherra hefur ákveðið að setja á fót fagráð sem fjalli um ásakanir vegna ofbeldisbrota og kynferðisbrota sérstaklega hjá trúfélögum. Fagráðið verði innanríkisráðherra til ráðgjafar í málum sem þessum og leiðbeinir um leiðir til úrbóta. Fagráðið móti samtímis reglur fyrir starfsemi þess, sem yrði grundvöllur að tillögum að breytingum á lögum um skráð trúfélög og eftir atvikum stofnanir og félagasamtök sem njóta opinbers stuðnings að einhverju eða öllu leyti, sem miði að því að koma kærumálum í markvissari farveg. Fagráðið verði jafnframt ráðherra til ráðgjafar um framkvæmd laga um skráð trúfélög nr. 108/1999, með síðari breytingum, einkum hvað varðar aðstæður sem greinir í 1. mgr. 6. gr. laganna.“

Vegna þeirra alvarlegu mála sem borist höfðu á mitt borð og vörðuðu Kaþólsku kirkjuna á Íslandi taldi ég rétt að óska eftir fundi með yður og bað ég fulltrúa hins nýskipaða fagráðs um að sitja þann fund ásamt ráðuneytisfólki . Á þessum fundi gerði ég yður grein fyrir þeim upplýsingum sem mér höfðu borist og vísaði til lögregluskýrslu þar sem rakin var reynsla fyrrnefndra brotaþola. Skýrsluna hafði ég meðferðis á fundinum með samþykki viðkomandi einstaklinga. Hvorki þér né lögmaður yðar óskuðu eftir því að fá lögregluskýrsluna í hendur.

Í bréfi yðar til mín segir: „Reyndar var um það rætt á fyrrnefndum fundi með ráðherra að lögmanni Kaþólsku kirkjunnar yrði sendar upplýsingar sem ekki hafa enn borist.“ Þessi útlegging er ekki í samræmi við það sem fram fór á fundinum. Þar var yður gert ljóst að kirkjan gæti óskað formlega eftir afritum af lögregluskýrslunum frá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Slík ósk var hins vegar aldrei sett fram. En hvernig sem því líður – og hvort sem skilningur yðar hafi verið annar en okkar – þá sætir það furðu í ljósi þess hve alvarlega atburði er hér um að ræða að Kaþólska kirkjan skuli ekki hafa gengið fast eftir því að fá öll gögn í hendur til skoðunar þegar í stað og hefja sjálfstæða rannsókn á málinu, með það að leiðarljósi að upplýsa málið eftir fremsta megni og mæta þeim einstaklingum sem hafa verið beittir órétti af hálfu kirkjunnar þjóna.

Ég tek undir það með yður að mál af þessu tagi eru lögreglumál og eiga að fara sína leið í gegnum réttarkerfið. Það firrir hins vegar ekki ábyrgð þær stofnanir eða samtök sem í hlut eiga ef brotin hafa farið fram innan þeirra vébanda og í skjóli þess trausts sem þar á að ríkja. Það er eðlilegt að reisa þá kröfu að tekið sé á málum af festu og allt gert sem hægt er til að upplýsa brotin og bæta fyrir þau eftir því sem kostur er. Sú staðreynd að þeir einstaklingar sem í hlut eiga eru látnir getur ekki orðið til þess að mál séu látin liggja í þagnargildi. Af hálfu ráðuneytisins snýst málið ekki um einstaklinga, heldur um stofnun.

Ég vil að lokum fagna því að þér hafið nú óskað eftir fundi með fagráði innanríkisráðuneytisins um þessi mál og fullvissa ég yður um að ég vil síður en svo verða til þess að „grafa undan því trausti sem kirkjan nýtur á meðal almennings“, eins og segir í bréfi yðar. Í reynd skipta mína gjörðir litlu máli hvað þetta snertir. Ég hygg að Kaþólska kirkjan verði í þessu máli sem öðrum dæmd af eigin verkum.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum