Hoppa yfir valmynd
19. júní 2003 Dómsmálaráðuneytið

Breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt

Fréttatilkynning
Nr. 14/ 2003


Breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt.



Ráðuneytið vill vekja athygli á því að Alþingi samþykkti í vetur breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt nr. 100/1952, sem heimilar íslenskum ríkisborgurum að halda íslensku ríkisfangi þótt þeir sæki um ríkisborgararétt í öðru ríki.

Lagabreytingin tekur gildi 1. júlí 2003.

Meginatriði lagabreytingarinnar eru þessi:

A. Íslenskur ríkisborgari heldur ríkisborgararétti sínum þegar hann öðlast ríkisborgararétt í öðru ríki, enda heimili það ríki tvöfaldan ríkisborgararétt. Hið sama gildir um ógift börn undir 18 ára aldri, sem viðkomandi hefur forsjá fyrir. Uppfylla þarf skilyrði 8. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt um búsetu eða dvöl hér á landi fyrir 22 ára aldur. (Sjá lið D)

B. Til þess að geta öðlast ríkisborgararétt í ríki sem ekki heimilar tvöfaldan ríkisborgararétt þarf íslenski ríkisborgarinn að sækja um lausn frá íslenska ríkisborgararéttinum áður en hann getur fengið þann nýja staðfestan. Sótt er um lausn frá ríkisborgararétttinum hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Beiðninni þarf að fylgja staðfesting á því að nýi ríkisborgararétturinn taki gildi þegar lausn er fengin hér á landi.

C. Íslenskur ríkisborgari sem tekið hefur ríkisborgararétt í öðru ríki og misst við það íslenska ríkisborgararéttinn, án þess að það ríki hafi krafist þess, getur óskað eftir að fá íslenska ríkisborgararéttinn að nýju með því að sækja um það til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Umsækjandi þarf að hafa verið búsettur hér á landi eða uppfylla skilyrði um dvöl hér samkvæmt 8. gr. laganna. Ekki er unnt að endurveita ríkisborgararéttinn nema fyrir liggi staðfesting á því að umsækjanda sé það heimilt án þess að missa núverandi ríkisborgararétt.
Umsóknarfrestur er til 1. júlí 2007.

D. Óbreytt er ákvæði 8. gr. ríkisborgararéttarlaganna um að íslenskur ríkisborgari sem fæddur er erlendis og ekki hefur átt hér lögheimili eða dvalið hér í einhverju skyni er af megi ráða að hann vilji vera íslenskur ríkisborgari missi íslenska ríkisborgararéttinn þegar hann verður 22 ára. Ekki missir hann þó íslenska ríkisborgararéttinn ef hann hefur ekki annan ríkisborgararétt og yrði þannig ríkisborgararéttarlaus. Þessum borgurum er því ekki heimilaður tvöfaldur ríkisborgararéttur.

Eyðublað vegna umsókna samkvæmt B- lið verður aðgengilegt á heimasíðu ráðuneytisins fljótlega.

Eyðublað vegna umsókna samkvæmt C- lið er að finna á heimasíðu ráðuneytisins.



Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
19. júní 2003.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum