Hoppa yfir valmynd
20. apríl 1999 Dómsmálaráðuneytið

Tillögur nefndar um aðgengi að lagagögnum á veraldarvefnum

Tillögur nefndar um aðgengi að lagagögnum á veraldarvefnum

Í júní 1998 ákvað dóms- og kirkjumálaráðherra, í samræmi við tillögur verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið, að setja á laggirnar nefnd til að fjalla um aðgengi að lagagögnum á veraldarvefnum. Hlutverk nefndarinnar var að gera tillögur um með hvaða hætti Stjórnarráðinu, fyrirtækjum og almenningi yrði tryggður aðgangur að hvers kyns lagagögnum á veraldarvefnum. Átti nefndin að taka afstöðu til þess hvaða gögn af þessu tagi skuli vera aðgengileg með þessum hætti, hvaða fyrirkomulag eigi að hafa á vistun og miðlun gagnanna, hvort taka beri gjald fyrir aðgang að þeim og fleiri atriði er þessu tengjast.

Í nefndina voru skipuð Stefán Eiríksson, deildarstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, formaður, Þórður Bogason, forstöðumaður nefndasviðs skrifstofu Alþingis, tilnefndur af skrifstofu Alþingis, Kristján Andri Stefánsson deildarstjóri, tilnefndur af forsætisráðuneytinu, Ingibjörg Þorsteinsdóttir lögfræðingur, tilnefnd af fjármálaráðuneytinu og Tómas H. Heiðar aðstoðarþjóðréttarfræðingur, tilnefndur af utanríkisráðuneytinu. Tómas Möller lögfræðingur í fjármálaráðuneytinu tók sæti í nefndinni í marsmánuði 1999 í stað Ingibjargar Þorsteinsdóttur. Eygló Halldórsdóttir, deildarstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, var ritari nefndarinnar.

Nefndin hefur nú lokið störfum og skilað ráðherra skýrslu.
Megintillaga nefndarinnar er að öll lagagögn verði gerð aðgengileg á netinu, notendum að kostnaðarlausu. Helstu tillögur nefndarinnar í þeim efnum eru:

  • að sett verði upp sérstök heimasíða á netinu þar sem öll tiltæk lagagögn verði gerð aðgengileg almenningi,
  • að starfrækt verði reglugerðasafn á netinu sem hafi að geyma alla gildandi reglugerðir uppfærðar í samræmi við síðari breytingar,
  • að A-, B- og C- deildir Stjórnartíðinda verði birtar á netinu, til að byrja með frá síðustu áramótum,
  • að valdir eldri alþjóðasamningar verði gerðir aðgengilegir á netinu,
  • að Hæstiréttur geri eldri dóma réttarins aðgengilega á netinu,
  • að dómstólaráð hafi forgöngu um miðlun héraðsdóma á netinu.

    Skýrsla nefndarinnar er hér birt í heild sinni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum